Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, hallast að því að fjölga þurfi seðlabankastjórum. Þetta sé vegna þess að umfang starfsemi bankans hafi aukist á skömmum tíma og meiri þörf sé á verkaskiptingu en áður. Þessu greinir RÚV frá.

Eins og VB.is greindi frá var starf seðlabankastjóra auglýst laust til umsóknar í byrjun júní, tíu sóttu um starfið og voru þeir Friðrik Már Baldursson, Már Guðmundsson og Ragnar Árnason metnir hæfastir.

Skipa átti seðlabankastjóra í síðustu viku en frestað var ráðningunni. Bjarni Benediktsson segir í samtali við RÚV að ráðningin hafi tekið lengri tíma en hann átti von á. Hann segir koma til greina að fjölga seðlabankastjórum og að sérstök nefnd sem hafi verið skipuð um málefni bankans hafi meðal annars haft þetta til skoðunar. Hann bendir á að vegna aukins umfangs á starfsemi bankans sé meiri þörf á verkaskiptingu en áður og ef Fjármálaeftirlitið verði síðan fært nær bankanum eins og rætt hafi verið um, séu rök fyrir fjölgun enn sterkari.

Aðspurður um hvenær niðurstaða sé væntanleg um skipun Seðlabankastjóra segir hann skipunartímann renna út núna í lok síðustu viku ágústmánaðar og að þurfi að afgreiða málið fyrir þann tíma.