Jóhanna Sigurðardóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, sagði í ávarpi á jafnréttisþingi sem hófst í morgun að hún hallist æ meir að notkun kynjakvóta til þess að uppfylla ákvæði stjórnarskrárinnar um jafnan rétt kvenna og karla og vilji skoða alvarlega setningu laga í því skyni.

Þetta kemur fram á vef félags- og tryggingamálaráðuneytisins.

„Það er óumdeilanlega hlutverk löggjafans og stjórnvalda, með setningu laga og reglna, að sníða samfélaginu þann stakk og leikreglur sem hæfa markmiðum okkar um sanngirni, réttlæti og siðlegt samfélag með grundvallargildi lýðræðis og jafnrétti að leiðarljósi,“ sagði Jóhanna í ræðu sinni.

„Það má gera því skóna að stjórnvöld og löggjafinn hafa á undanförnum árum átt í vök að verjast hvað þetta hlutverk varðar gagnvart þeim sem engum leikreglum vilja lúta, gagnvart þeim sem hafa viljað segja sig úr lögum hvað ábyrgð þeirra gagnvart samfélaginu í heild varðar, og með því slíta sig úr siðferðilegu sambandi við þjóðina.“

Sjá nánar vef ráðuneytisins en þar má einnig nálgast ræðu alla.