*

þriðjudagur, 30. nóvember 2021
Innlent 24. mars 2018 11:09

Íhugar skaðabótamál vegna Klakka

Lindarhvol ber að afhenda gögn um söluferlið á hlut ríkisins í Klakka samkvæmt nýjum úrskurði.

Snorri Páll Gunnarsson
Sigurður Valtýsson, forsvarsmaður Frigusar II ehf. og fyrrum forstjóri Exista.
Birgir Ísl. Gunnarsson

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur fallist á kröfur Frigusar II ehf. um aðgang að gögnum frá Lindarhvol og fjármálaráðuneytinu varðandi sölu Lindarhvols á tæplega 18% hlut ríkisins í Klakka sem boðinn var til sölu haustið 2016. Viðskiptablaðið hefur úrskurð nefndarinnar undir höndum. Af þeim þremur félögum sem buðu í hlutinn tengdust tvö stjórnendum Klakka. Forsvarsmaður Frigusar segir að ekkert gagnsæi hafi verið í söluferlinu og að Lindarhvoll hafi selt eigur ríkisins til sérvalinna aðila. Félagið íhugar að höfða skaðabótamál vegna sölunnar.

Lindarhvoll, eignarhaldsfélag sem annaðist umsýslu og fullnustu á þeim eignum sem ríkið fékk sem stöðugleikaframlög slitabúa bankanna, seldi hlut ríkisins í Klakka til BLM fjárfestinga, sem var hæstbjóðandi, fyrir 505 milljónir króna. Magnús Scheving Thorsteinsson, forstjóri Klakka, er eini stjórnarmaður félagsins, sem er dótturfélag írska vogunarsjóðsins Burlington Loan Management. Félagið Ásaflöt átti næsthæsta tilboðið, sem hljóðaði upp á 502 milljónir. Ásaflöt er í eigu DRC Corporate Services sem er aftur í eigu Magnúsar Scheving, Brynju Daggar Steinsen, rekstrarstjóra Klakka, og Jóns Arnar Guðmundssonar, fjármálastjóra Klakka. Þriðja tilboðið barst frá Frigus II, í eigu Sigurðar Valtýssonar, fyrrverandi forstjóra Exista, og bræðranna Ágústs og Lýðs Guðmundssona sem kenndir eru við matvælafyrirtækið Bakkavör. Hljóðaði það upp á 501 milljón.

Samkvæmt úrskurðinum vildi Ásaflöt ekki að upplýst yrði um þátttöku þess í söluferli Klakka. Jafnframt hélt félagið því fram að Lindarhvoll hefði heitið því trúnaði. Í úrskurðinum kemur fram að Lindarhvoli hafi ekki verið stætt á því að heita þátttakendum í söluferlinu trúnaði um þátttökuna.

Klakki er það sem eftir stendur af fjármálafyrirtæki sem áður hét Exista og var yfirtekið af kröfuhöfum við samþykkt nauðasamninga í árslok 2010. Eignasafn Klakka samanstendur að langmestu leyti af eignaleigufyrirtækinu Lykli, sem nú er í söluferli. 

Eins konar innherjasvik

Sigurður, sem er forsvarsmaður Frigusar, segir ljóst að hlutur ríkisins í Klakka hafi verið seldur til sérvalinna aðila og að ekki hafi verið reynt að hámarka söluverðið. Sigurður gagnrýndi harðlega vinnubrögðin við söluna á sínum tíma, meðal annars á síðum Viðskiptablaðsins, og sagði að hvorki hafi verið gætt jafnræðis né gagnsæis við söluna.

„Auðvitað læddist þegar að okkur grunur um að ekki væri allt með felldu eftir að útboðinu lauk,“ segir Sigurður. „Vandséð er hvernig unnt var að bjóða í hlutina nema fyrir þá sem gjörþekkja félagið og eins hvernig slíkt fyrirkomulag gat tryggt ríkinu hæsta verð fyrir hlutinn. Þetta vissi Steinar Þór Guðgeirsson lögmaður mætavel.“

Steinar Þór var ráðgjafi Lindarhvols og jafnframt stjórnarmaður í Klakka fram að sölunni. Lindarhvoll keypti þjónustu af Íslögum, lögmannsstofu Steinars Þórs, fyrir 39 milljónir árið 2016.

Sigurður bendir á að tilboðsgjafar hafi ekki setið við sama borð í aðdraganda sölunnar. Þannig hafi forstjóri Klakka, og þar með tveir tilboðsgjafar, haft aðgang að upplýsingum um fjárhagsstöðu Klakka, einkum hálfsársuppgjör félagsins fyrir árið 2016, en ekki Frigus. Samkvæmt samþykktum Klakka hafi uppgjörið þó átt að liggja fyrir áður en farið var í útboð. Uppgjörið reyndist vera umfram væntingar, sem hefði getað leitt til hærra tilboðs. Í kjölfar tilboðs Frigusar sendu BLM fjárfestingar inn tilboð sem var 0,8% hærra en tilboð Frigusar en 18% hærra en fyrra tilboð BLM

Forsvarsmenn Frigusar óskuðu eftir því við Lindarhvol og fjármála- og efnahagsráðuneytið að félagið fengi aðgang að fyrirliggjandi gögnum um söluferli Klakka til að átta sig á því hvernig staðið var að ákvörðun um söluna. Þeim beiðnum var hafnað og kærði Frigus þær synjanir til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, sem hefur fallist á nær allar beiðnir Frigusar.

Meðal þeirra gagna sem Frigus fær nú aðgang að eru fundargerðir stjórnar Lindarhvols, tölvupóstar Steinars Þórs til stjórnar Lindarhvols, samskipti Lindarhvols við tilboðsaðilana þrjá, tilboðsafrit og bréfasamskipti Lindarhvols og fjármálaráðuneytisins. Gögnin hafa enn ekki borist Frigusi.

Áfellishnekkir fyrir stjórnina

Sigurður segir að þegar gögnin verða afhent muni félagið kanna rétt sinn, meðal annars með tilliti til skaðabótamáls.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: Klakki Lindarhvoll Frigus