FL Group íhugar nú þátttöku Sterling flugfélagsins í samrunaferli við lággjaldaflugfélög í Evrópu eða að skrá flugfélagið á hlutabréfamarkað, sagði Hannes Smárason í viðtali við Dow Jones fréttastofuna í gær.

Öll þátttaka í samruna við evrópsk flugfélög yrðu í gegnum kaup á hlut í stærri fyrirtækjum, sagði Hannes, en vildi þó ekki gefa upp nöfn þeirra fyrirtækja sem væru til íhugunar.

Ef Sterling verður skráð á hlutabréfamarkað mun FL Group líklegast halda eftir minnihluta í flugfélaginu, sagði Hannes.

Hann segir umbótaáætlun flugfélagsins ganga vel og að FL Group gæti vel séð fyrir sér að flugfélagið væri aðili í samruna eða að skrá fyrirtækið á hlutabréfamarkað, en þó ekki fyrr en umbótaáætluninni væri lokið. Tap Sterling nam 2,53 milljörðum króna á fyrri hluta árs 2006.

Þrálátur orðrómur hefur verið á markaði um nokkurt skeið að unnið sé að sameiningu FlyMe, sem er að hluta til í eigu eignarhaldsfélagsins Fons, FlyNordic, sem er í eigu Finnair en FL Group og Straumur-Burðarás eiga samtals um 20% hlut í félaginu, og Sterling. Ekki hefur komið fram hvort að hætt sé við hugsanlegan samruna þessarra þriggja félaga.