Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, segir að farsælast væri að mynda þjóðstjórn og í kjölfarið að kosið verði aftur til Alþingis, í kjölfar þess að slitnaði upp úr viðræðum Sjálfstæðisflokks og VG í gær. Þetta kemur meðal annars fram í DV .

Eins og Viðskiptablaðið greindi frá í gær, þá er Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, ekki í viðræðum við neina flokka, en telur hyggilegasta kostinn enn stjórn Viðreisnar, Bjartrar framtíðar og Sjálfstæðisflokks. Hins vegar eru forsvarsmenn Bjartrar framtíðar og Viðreisnar, spenntari fyrir möguleikanum á fimm flokka stjórn frá miðju til vinstri.

Efins um fimm flokka stjórn

Vinstri græn eru hins vegar efins um að hægt sé að mynda fimm flokka stjórn, það segir Katrín Jakobsdóttir í samtali við Morgunblaðið . Þar kemur einnig fram að fulltrúar Pírata, Viðreisnar, Bjartrar framtíðar og Samfylkingarinnar hafa hafið aftur óformlegar viðræður - en ekki sé vilji Vinstri grænna til að halda áfram með þær viðræður.

Forseti boðar á fund

Forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson hefur boðað formenn flokkanna á sinn fund klukkan 10. Forseti mun fyrst hitta formann Sjálfstæðisflokksins, Bjarna Benediktsson og í kjölfarið aðra formenn flokka.

Staðan er því óneitanlega nokkuð snúin og hafa ýmsir sérfræðingar bent á að gæti stefnt í stjórnarkreppu - ef að ekki nær að leysa úr þeim vanda sem upp er komin við stjórnarmyndun í kjölfar kosninga.

Eins og Viðskiptablaðið hefur áður greint frá verður þing að öllum líkindum sett aftur 6. desember svo að hægt sé að leggja fjárlagafrumvarp fyrir þingið.