Vince Cable, viðskiptaráðherra Breta hefur gefið til kynna, að breskum bönkum, verði skipt upp og rekstur viðskiptabanka og fjárfestingarbanka verði skilinn að. Hann hefur jafnframt sagt, að það komi til greina að grípa til þessara aðgerða, þótt ekki verði um það samstaða á alþjóðavísu.

Þetta kemur fram á vef Evrópuvaktarinnar . Þar segir að slíkur aðskilnaður viðskiptabanka og fjárfestingarbanka var lengi í gildi í Bandaríkjunum, skv. svonefndum Glass-Steagall-lögum, sem sett voru á kreppuárunum upp úr 1930 en afnumin undir lok síðustu aldar.

Bankamenn andsnúnir

Þá segir að hinn nýi viðskiptaráðherra Breta hafi komist svo að orði, að fyrri ríkisstjórnir gerðu „samning við djöfulinn“ í samskiptum sínum við bankana á undanförnum árum. Forsvarsmenn banka í Bretlandi og annars staðar eru andvígir slíkum aðskilnaði.