Þýski húsnæðislánabankinn IKB Deutsche Industriebank AG þarf aukafjármögnun upp á tvo milljarða evra til að halda sér að floti, að því að kemur fram í ýmsum þýskum fjölmiðlum um helgina. Þýska dagblaðið Frankfurter Allgemeine Sonntagszeitung segir að endurverðmat á eignasafni bankans hafi leitt í ljós að allt að 11,5 milljarðar evra gætu lent í afskriftum. Heimildir herma að þar af sé 8,1 milljarður vegna Rhineland Funding, sem er fjárfestingasjóður á vegum bankans. 3,35 milljarðar evra eru komnir vegna skráðra eigna bankans í efnahagsreikningi hans, en sú upphæð er mun hærri en áður var talið. Stjórnendur bankans hafa ekki tjáð sig um málið.

Hluthafar ætla að selja

Þýski bankinn KfW, sem hefur verið meðal stórtækari aðila í krónubréfaútgáfu, er eigandi að 38% hlut í IKB. Talsmaður KfW segir yfirstjórn bankans ætla að hittast á miðvikudag og ræða fyrirhugaða sölu á hlutnum í IKB. Að öðru leyti hefur bankinn ekki tjáð sig um ástandið á IKB, frekar en aðrir hluthafar og hagsmunaaðilar. Efnahagsmálaráðherra Þýskalands, Peer Steinbrueck, sagði á fundi G-7 þjóðanna nú um helgina að „of snemmt“ væri að gefa upp nýjar upplýsingar um IKB, en einhverra fregna væri að vænta í komandi viku. Síðasta sumar var IKB bjargað af KfW og öðrum bönkum eftir að tilkynnt var um mikilla afskrifta vegna undirmálslánakrísunnar í Bandaríkjunum. Fjárfestingasjóður IKB, Rhineland Funding, hafði stórar stöður í bandarískum húsnæðislánum og þurfti utanaðkomandi lán til að standa skil á greiðslum.