Pizzustaðurinn Spaðinn var rekinn með tveggja milljóna króna tapi á síðasta ári. Um var að ræða fyrsta rekstrarár staðarins, sem var opnaður í byrjun síðasta sumars. Rekstrartekjur námu tæplega 200 milljónum króna og rekstrargjöld ríflega 201 milljón.

Eignir Spaðans námu 231 milljón króna í lok síðasta árs og eigið fé 165 milljónum króna. Skuldir námu 66 milljónum króna.

Þórarinn Ævarsson, stofnandi og framkvæmdastjóri Spaðans, er stærsti hluthafi félagsins með ríflega 51% hlut í sinni eigu. Næststærstu hluthafar eru Fari ehf. og Fagrahæð ehf. með 20,5% eignarhlut hvort um sig.

Fari ehf. er í eigu Jóns Pálmasonar, annars eigenda IKEA á Íslandi. Fyrrnefndur Þórarinn starfaði einmitt um árabil sem framkvæmdastjóri IKEA á Íslandi.

Fagrahæð ehf. er svo í 57% eigu tannlæknisins Mörtu Þórðardóttur, sem er eiginkona Guðna Rafns Eiríkssonar, eiganda Skakkaturns, umboðsaðila Apple á Íslandi. Eftirstandandi 43% hlutur í Fögruhæð er svo í eigu Sigurðar Hreiðars Jónssonar, sérfræðings hjá Íslenskum fjárfestum.

Loks er eftirstandandi 8% hlutur í Spaðanum í eigu Fasteignafélagsins Óslands ehf., sem er í jafnri eigu bræðranna Sigurðar Gísla Pálmasonar og fyrrnefnds Jóns Pálmasonar, sem eru eigendur IKEA á Íslandi.