Húsgagnaverslunin IKEA hyggst endurgreiða níu ríkjum þann fjárhagslega stuðning sem starfsmenn félagsins fengu er þeir voru settir í launalaust leyfi vegna kórónufaraldursins. Frá þessu er greint á vef BBC.

Þar sem búðir félagsins eru nú um mundir að opna aftur munu þau heldur ekki taka á móti neinum nýjum styrkjum. Meðal ríkja sem IKEA mun endurgreiða eru Bandaríkin, Írland, Belgía og Spánn. Um 10 þúsund starfsmenn IKEA voru settir í launalaust leyfi í Bretlandi en þar sem breska ríkið veitti þeim starfsmönnum ekki fjárhagslegan stuðning er engin þörf á endurgreiðslu.

Einhver umfjöllun hefur verið um endurgreiðslu á styrkjum frá Vinnumálastofnun vegna hlutabótaleiðarinnar hér á landi. Meðal íslenskra fyrirtækja sem hafa endurgreitt Vinnumálastofnun eru Festi og Hagar. Hagar sögðu mikla óvissu hafa ríkt þegar þau ákváðu að nýta sér úrbót ríkisins en þar sem áhrifin voru minni en óttast var í upphafi, töldu þau rétt að endurgreiða Vinnumálastofnun þann styrk sem þau fengu.