IKEA mun hækka verð um 4% að meðaltali á nýjum vörulista sem tekur gildi 1. september og gildir næsta árið. IKEA segir fyrirtækið ekki hækka verð nema nauðsyn krefji en breytt efnahagsástand gefi tilefni til hækkana.

Stærsti óvissuþátturinn í rekstri IKEA séu gengisbreytingar en gengi evru hefur hækkað um 11% frá síðustu verðbreytingum. „Það er forsvarsmönnum IKEA kappsmál að standa með neytendum og axla samfélagsábyrgð með lágu verði og því er verðhækkunum haldið í lágmarki sem fyrr,“ segir í tilkynningu frá IKEA.