Þeir sem spila tölvuleikinn The Sims 2 munu frá og með 27. júní þessa árs getað bætt Ikea-húsgögnum við sýndarheimili sín. Ikea og Electronic Arts (EA), framleiðandi tölvuleikjarins, hafa náð samkomulagi þar um. Í Sims leiknum geta spilarar skapað sitt eigið sýndarheimili og búið það og íbúa þess eftir sínum smekk.

Húsgögnin munu fást í viðbótarhugbúnaðarpakka. EA gefur út 3 slíka pakka á ári til að mæta kröfum Sims-spilara sem eru æstir í að þróa sýndarheim sinn frekar. Guardian hefur í frétt sinni um þetta eftir markaðsstjóra Ikea, Anna Crona, að fyrirtækið líti á samninginn sem gott tækifæri til að ná til ungs fólks, sem og fólks sem er ungt í anda.

Fyrir ári síðan samdi EA við annað sænskt fyrirtæki, H&M, um að leyfa Sims-spilurum að klæða persónur sínar í leiknum í föt frá H&M. Hugbúnaðarpakkinn með H&M klæðnaðinum seldist í 1 milljón eintaka á fyrsta árinu sem hann fékkst. EA hafa einnig samið við Ford um að leyfa Sims-persónum að nota bílategundir sem Ford framleiðir og hafa nú 2,7 milljónir eintaka af Ford-hugbúnaðarpakka selst í heiminum.