Ikea kannar nú möguleika á að opna söluvefvang (e. plattform) fyrir húsgögn. Financial Times greinir frá þessu og segir að stefnan sé að selja ekki eingöngu eigin framleiðslu heldur einnig vörur keppinauta sinna. Ikea er stærsti smásöluaðila húsgagna í heiminum en blaðið hefur eftir framkvæmdastjóranum Torbjorn Loof að söluvefvangurinn hafi vefvanga á borð við Alibaba og Amazon að fyrirmynd.

Loof horfi líka til félaga eins og Zalando sem sé orðinn stærsti vefvangur tískuvara í Evrópu þrátt fyrir að enginn tískuvöruframleiðandi eigi hlut í félaginu.

Ikea gengst nú undir mestu endurskipulagningu í sögu félagsins og í gangi eru tilraunir eins og að leigja húsgögn, selja í gegnum þriðja aðila og bjóða upp á samsetningu húsgagna í heimahúsum viðskiptavina sinna.

Aðspurður hvort Ikea íhugi að selja vörur sínar á Amazon segir Loof að það sé ekki á teikniborðinu. Amazon og Alibaba séu meira eins og verslunarmiðstöð á netinu en Ikea stefni að því að einbeita sér frekar að vera vefvangur með afmarkaðri vöruúrval á afmarkaðri markaði. „Þetta snýst líka um tengsl. Tökum heimilishúsgögn sem dæmi þá snúast þau um tengsl heimilisins við samfélag og þekkingu. Þetta eru ekki bara spurning um húsgögn heldur einnig myndlist og venjulegt fólk sem hönnuði eigin heimilis. Tengslin er margvísleg og þau eru í stanslausri þróun,“ segir Loof í samtali við Financial Times.