Matvælastofnun hefur fengið upplýsingar frá IKEA um innköllun pizza pepperoni sem selt er undir vörumerkinu Heima pizza að því er kemur fram í fréttatilkynningu frá Matvælastofnun.

Í fréttatilkynningu Ikea segjast þeir vilja vekja athygli viðskiptavina sem keypt hafa Heima pizza pepperoni á tímabilinu 10.-18. apríl að fyrir mistök gleymdist að taka filmu utan af pepperoni pylsunni fyrir skurð.

Filman er úr sellulósa og er ekki skaðleg þótt hún sé innbyrt með pylsunni.

Innköllunin nær til Heima pizza pepperoni sem selt var á tímabilinu 10.-18. apríl, og er merkt Best fyrir 22.05.17. Innköllunin nær til rúmlega 120 seldra pakkninga.

Viðskiptavinum er velkomið að skila vörunni í IKEA og fá hana endurgreidda, en hún ber vörunúmerið 9617006.

Athyglisvert er að í fyrirsögn og fréttatilkynningu Matvælastofnunar er talað um að um sé að ræða aðskotahlut í pizzum þó að standi að vöruheitið sé Heima pizza pepperoni í sömu tilkynningu.