Sænski húsgagnarisinn Ikea mun kaupa gamla flaggskip Topshop á Oxford stræti í Lundúnum. Ingka Investments, sem á meirihluta Ikea verslana, mun greiða 378 milljónir punda eða um 56,7 milljarða króna fyrir verslunarrýmið. Áætlað er að viðskiptunum verði formlega lokið í janúar en gert er ráð fyrir að verslunin opni ekki fyrr en haustið 2023.

Ingka hyggst nýta hluta af sex hæða verslunarrýminu, sem spannar alls 22,2 fermetra, fyrir Ikea verslun. Um er að ræða hluta af stefnubreytingu hjá Ikea sem er nú að prófa sig áfram með minni miðbæjarverslunum í stað stórra verslana í útjaðri borga.

„Þetta er frábær staðsetning og við trúum mjög svo á London og Bretland til langs tíma,“ er haft eftir Krister Mattsson, framkvæmdastjóra Ingka, í frétt Financial Times . „Bretland er líka áhugavert eftir Brexit. Til lengri tíma teljum við að hlutirnir nái góðri lendingu hér.“

Mattson segir að þrátt fyrir verulega aukningu í netverslun Ikea, sem vegur nú um 30% af veltu húsgagnarisans, samanborið við 7% árið 2019, þá leggi fyrirtækið áfram áherslu á hefðbundnar verslanir.

„Oxford stræti er miklu aðgengilegra og er leið til að bjóða upp á víðtækari tækifæri fyrir viðskiptavini að kynnast smásölu Ikea,“ er haft eftir Mattson.

Verslunarrýmið hýsti áður þekktustu verslun fatamerkisins Topshop. Fataverslunin var lokað í byrjun þessa árs eftir að breska móðurfélagið Arcadia var sett í greiðslustöðvun. Netverslunin Asos keypti fyrr á árinu vörumerkin Topshop, Topman og Miss Selfridge úr þrotabúi Arcadia.