Sænska húsgagnaverslunarkeðjan IKEA opnaði sína fyrstu verslun á Indlandi nú í morgun. Verðlag verður lykilatriði, í landi þar sem meðallaun eru undir 18 þúsund krónum á mánuði. Um það bil 1000 af þeim 7500 vörum sem eru til sölu í hinni nýju verslun kosta undir 300 krónur.

John Achillea, IKEA-reynslubolti og verslunarstjóri hinnar ný-opnuðu verslunar, segir verðin svo lág að allir hafi efni á að versla hjá þeim. „Við erum hér vegna þess að við vitum að Indverjar setja elska fjölskyldu sína mest af öllu, en heimilið næstmest. Við viljum gefa þeim nýjan valkost þegar kemur að heimilinu.“

Verslunin opnaði klukkan 10 í morgun að staðartíma, eða hálf 5 í nótt að íslenskum tíma, og 2 tímum eftir opnun taldi Achillea að um 3000 manns hefðu þegar komið.

Abhishek Chapalamadugu, viðmælandi CNN, sem fjallar um málið, sagðist sérstaklega ánægður með opnun IKEA vegna þess að hann væri hrifinn af því að gera hluti sjálfur, með vísan í það að viðskiptavinir setja IKEA húsgögnin sjálfir saman þegar heim er komið. Algengt er að Indverjar láti trésmiði smíða húsgögnin sín. Verslunin er því með 150 manns í vinnu við að setja saman vörurnar, fyrir þá sem eru óvanir, og hafa ekki jafn gaman af því að gera hluti sjálfir og Chapalamadugu.

Þangað til nýlega hefur IKEA ekki getað opnað verslanir á Indlandi vegna þess að hömlur hafa verið á erlendri fjárfestingu, en þær reglur hafa nú verið rýmkaðar.