Sænska verslanakeðjan Ikea selur mest allra af síld á Norðurlöndunum, að sögn Teits Gylfasonar, sölustjóra hjá Iceland Seafood. Teitur var með erindi á Sjávarútvegsráðstefnunni á dögunum þar sem hann gerði grein fyrir því hvað verði um uppsjávarfiskinn frá Íslandi.

Fiskifréttir fjalla um málið í blaði dagsins sem fylgdi Viðskiptablaðinu í dag.

Þar segir ennfremur að megnið af uppsjávarafurðum Íslendinga sé heilfrystur fiskur eða fryst flök sem fara í framhaldsvinnslu erlendis. Þetta á við um síld, makríl, loðnu og kolmunna. Erlendis er fiskurinn maríneraður, saltaður, reyktur og þurrkaður.

Makríllinn er seldur reyktur til Austur-Evrópu og seldur á fiskmörkuðum í Rússlandi. Síldin fer í margskonar afurðir en vinsælasti síldarrétturinn í Austur-Evrópu er maríneruð síld með kartöflum, dilli og lauk.

Ikea er með verslanir víða á Norðurlöndunum. Í hverri verslun er matsala og þar er m.a. boðið upp á síld í sérmerktum krukkum.

Áskrifendur geta nálgast Fiskifréttir hér að ofan undir liðnum tölublöð.