„Við viljum auðvitað sjá sem flesta hér, en enga ósæskilega umferð, allra síst á nóttunni. Fyrirtækin vilja passa upp á sitt,“ segir Páll Þorsteinsson, upplýsingafulltrúi Toyota á Íslandi. Eigendur fasteigna og fyrirtækja í Kauptúni, þar sem umboð Toyota er til húsa, hafa samið við IKEA um eftirlit með fasteignum og öðrum verðmætum sem eru á svæðinu. IKEA hefur sett upp myndavélar sem staðsettar eru víða um götuna og nema alla umferð. Auk þess er farið í reglubundnar eftirlitsferðir á bílum um svæðið bæði dag og nótt alla daga ársins.

Páll bendir á það í samtali við vb.is að þótt þótt ekkert misjafnt hafi komið upp í Kauptúninu þá hafi umsvifin þar aukist mikið á síðustu mánuðum og er umferð því töluverð í götunni og á nærliggjandi svæðum. Auk þess bætist við eftirlit vegna  byggingarframkvæmda í Urriðaholti þar sem nýtt íbúðarhverfi er að rísa.

Hann segir Ikea á meðal frumbyggja í Kauptúninu og sinnt öryggisgæslu á svæðinu í gegnum tíðina. Önnur fyrirtæki hafi samið við Ikea og sé nú svo komið að líta má á þetta sem svæðisgæslu.