Einar frá Myre er stærsti trefjabátur sem bátasmiðjan Trefjar ehf. í Hafnarfirði hefur smíðað. Hann er tæplega 15  metra langur, 5,60 metra breiður og með 880 hestafla Doosan vél. Ráðgert er að Ólafur Einarsson eigandi bátsins og skipstjóri sigli honum til heimahafnar í Noregi í þessari viku og framundan er  því um sex daga sigling til austurs. Blaðamaður fór með Ólafi í reynslusiglingu innan Hafnarfjarðarhafnar þar sem stýrið var meðal annars stillt inn.

Ólafur gerði út tvo báta frá Myre; Olafur Cleopatra 38, sem er tæplega 11 metra langur, áður Auður Vésteinsdóttir GK, og Olafur 2 Cleopatra 50, áður Ásta B. Hann hefur nú selt fyrrnefnda bátinn.  Nýi báturinn sem var prufaður í Hafnarfjarðarhöfn verður gerður út samhliða stærri bátnum. Þannig verður Ólafur með tvo tæplega 15 metra langa báta í drift.

Opin leið í Noregi

Ólafur fæddist á Suðureyri við Súgandafjörð 1973 og flutti þaðan með foreldrum sínum til Reykjavíkur níu ára gamall. Hann aldist upp í Árbænum en flutti svo til Hafnarfjarðar þar sem faðir hans, Einar Ólafsson, skipstjóri og útgerðarmaður, gerði út krókaaflamarksbátinn Ólaf HF. Einar tók svo við útgerðinni þegar fram liðu stundir. Hann segir að það hafi verið erfið barátta að gera út kvótalausan bát og reiða sig á leigukvóta. Rekstrarumhverfið var ekki bjart. Einar fór því að svipast um eftir öðrum tækifærum. Hann fór til Noregs árið 2014 til þess að skoða umhverfið þar. Margir sem hann þekkti höfðu komið sér fyrir í sjómennsku í Noregi og létu vel af því.

„Ég fór nokkra túra á sjó frá Havesund í Norður-Noregi til þess að kynnast þessu og afla mér reynslu. Svo keypti ég gömlu Auði Vésteinsdóttur af Einhamri í Grindavík. Ég fékk Trefjar til þess að breyta henni til þess að komast inn í svokallaðan opinn flokk í Noregi,“ segir Ólafur.

Til þess þurfti að stytta bátinn þannig að hann væri undir 11 metrum. Opni flokkurinn er leið Norðmanna til þess að tryggja nýliðun í fiskveiðum. Skilyrðin eru þau að menn þurfa að hafa verið til sjós í Noregi í ákveðinn tíma, vera með norska kennitölu og vera skráðir sem sjómenn til þess að vera gjaldgengir í flokkinn. Svalirnar voru teknar aftan af bátnum og bútur framan af stefninu sem var svo settur á aftur eftir skráningu.

Beint á veiðar

Báturinn var kominn með skráningu í febrúar 2015 og fékk Ólafur strax 60 tonna þorskakvóta og mátti veiða óheft af öðrum tegundum. Hann lét flytja bátinn með fragtskipi til Sortlands rétt norðan við Lófóten. Þaðan fór hann beint á næstu fiskimið, fyllti bátinn af þorsk og ýsu, og landaði í bænum Myre. Þar hefur hann að mestu haldið til síðan og komið sér ágætlega fyrir.

Ólafur segir ekki eftir jafnmiklu að slægjast nú og áður í opna flokknum í Noregi. Litlir kvótaeigendur hafi séð sér leik á borði, selt frá sér kvóta og farið inn í opna flokkinn og fengið afhent á silfurfati 60 tonn. Mikil fjölgun hafi því orðið innan kerfisins. Strax árið 2016 var kvótinn skorinn niður í 38 tonn á bát. Þá ákvað Ólafur að byrja að fjárfesta í kvóta.

„Mér leist þannig á framhaldið að það gæti farið að fjara undan þessu kerfi. Verð á þorskkvóta er auk þess töluvert lægra í Noregi en á Íslandi. Keyptir eru svokallaðir lengdarmetrar sem eru í raun og veru þorskígildi og bak við þessa lengdarmetra eru þorskur, ufsi og ýsa.  En þessi opni flokkur opnaði nýliðum leið inn í veiðarnar sem var ekki möguleiki á Íslandi. En núna er þetta því miður að snúast við í Noregi og að fara í sama horf og á Íslandi. Opni flokkurinn, sem var ætlaður fyrir nýliða og þá sem voru að byggja sig upp, var í fyrra kominn niður í 14 tonna þorskkvóta úr 60 tonnum á fjórum árum.“

Þóttu nóg um Íslendingana

Reglur um meðafla og landanir á ferskum fiski til vinnslunnar drýgja þó kvótann verulega og gera mörgum kleift að gera út allt árið. Ólafur segir aðal þorskveiðitímabilið standi einungis yfir í þrjá mánuði, í febrúar, mars og apríl. Þá sé líka ævintýralegt fiskirí. Fiskvinnslur eru mjög víða og þannig útbúnar að þær geta tekið við gríðarlegu hráefni á stuttum tíma. Mörgum þeirra er einfaldlega lokað að vertíðinni lokinni. Þær hafa vart undan veiðunum. Dæmi um atganginn er að sumar vinnslurnar í Myre taka á móti allt að 850 tonnum af fiski á dag. Nýlega var í Myre opnuð ein fullkomnasta flökunarvinnslan í Evrópu sem er í eigu franskra aðila. Það er því talsverður uppgangur í Myre þar sem búa um 3.500 manns. Þar hefur Ólafur nú búið í á fimmta ár. Hann segir að á tímabili hafi þar verið átta íslenskar útgerðir. Íslendingarnir séu í ágætu sambandi og miðli sinni reynslu og þekkingu á milli sín.

„Í fyrstu fannst Norðmönnunum nóg um innrás Íslendinga inn í veiðarnar þarna. Þeir unnu talsvert á móti okkar á tímabili og umræða var um að stöðva veiðar útlendinga. Nú hefur rykið sest og eiginlega komið á gott samstarf.“

Nú eru fjórar eða fimm norskar útgerðir í Myre farnar að gera út báta með beitingarvélar.

„Fyrst þegar ég byrjaði í Noregi leið mér eins og ég væri að fara 20 ár aftur í tímann. Hvað varðar meðferð á afla. En þeir hafa tekið sig mikið á í þessum efnum. Það hefur verið mikil vitundarvakning í Noregi um meðferð á fiski.“