Lárus L. Blöndal, hæstaréttalögmaður og meðeigandi á lögmannsstofunni Juris, var í síðustu viku skipaður stjórnarformaður hjá Bankasýslu ríkisins. Bankasýslan er ríkisstofnun með sjálfstæða stjórn sem heyrir undir fjármálaráðherra og hóf í janúar 2010. Hún fer með eignarhluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum og er eignarhluturinn í Landsbankanum þar veigamikill.

„Það er alveg ljóst að þetta eru mikilsverðar eignir þarna undir og ég geri ráð fyrir því að það geti orðið áhugavert hvernig verður farið með þessar eignir. Það er allavega ljóst að maður þarf að hugsa vel um þessa hagsmuni,“ segir Lárus, sem býst ekki við því að umræða um nýjar höfuðstöðvar Landsbankans eigi eftir að taka mikið af hans tíma. Lárus er ekki óvanur stjórnarsetu.

Hann hefur verið í stjórn Íþróttasambands Íslands frá árinu 2001 og sat í stjórn Lögmannafélagsins á árunum 1995-1997. Þá tók hann sæti í stjórn Eimskips á síðasta ári. Lárus sinnir þó fyrst og fremst lögmannsstörfum, hann hefur verið hjá Almennu lögfræðistofunni frá árinu 1990 og hún sameinaðist svo Juris árið 2008 og starfar Lárus þar enn í dag.

Lárus hefur verið forseti ÍSÍ undanfarin ár og var endurkjörinn í apríl síðastliðnum. Hann viðurkennir að það sé eitthvað sem trekkir hann í íþróttastarfið. „Ég er nú búinn að vera í yfir 20 ár í forystunni, ég var formaður Stjörnunnar í 8-9 ár og síðan ég hætti þar hef ég verið stjórnarmaður í ÍSÍ. Einhverra hluta vegna ílengist maður í þessu,“ segir Lárus.