Norska dómsmálaráðuneytið hefur upplýst að háum fjárhæðum hafi verið varið í auglýsingar og verkefni sem ekki samræmast kröfum og reglum um hvernig fjármunum ríkisins er eytt. Einungis á árinu 2011 var 895.000 norskra króna, sem samsvarar tæpum 20 milljónum íslenskra króna, eytt í auglýsingar sem flokkast frekar sem stuðningur við ýmis einkarekin samtök frekar en auglýsing á þjónustum ráðuneytisins. Þetta kemur fram í frétt Aftenposten í dag.

Þar kemur einnig fram að málefni eins embættismanns hjá ráðuneytinu sé í skoðun og að ákvarðanir um greiðslurnar hafi verið teknar á stjórnendastigi ráðuneytisins. Ríkissaksóknari hefur nú fengið málið inn á sitt borð og tekur ákvörðun um áframhaldandi rannsókn málsins.