Nokkur ófriður hefur nú myndast innan Háskóla Íslands í kjölfar bréfs sem Pétur Pétursson, prófessor við guðfræðideild skólans, sendi Kristínu Ingólfsdóttur, rektor. Í bréfinu sakar Pétur Magnús S. Magnússon, prófessor í atferlisvísindum við HÍ, um blekkingar, óheiðarleika og aðkast í garð sinn og annarra starfsmanna guðfræðideildar.

Bréfið var sent þann 16. október síðastliðinn og er Magnús þar borinn þungum sökum. Tilefni skrifanna mun hafa verið meint dónaleg framkoma Magnúsar á málþingi trúarbragðafræðistofu hugvísindasviðs HÍ föstudaginn 10. október. Þar lýsir Pétur því að fyrirlesarar á málþinginu hafi orðið fyrir aðkasti af hálfu Magnúsar.

Sagður hafa spillt friði á málþingi

Pétur segir fyrirlesara á málþinginu ekki hafa fengið frið til að flytja erindi sín fyrir Magnúsi, "þó alveg sérstaklega dr. Sigurður Pálsson en málþingið var haldið honum til heiðurs vegna kennslustarfa hans við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild og samningu kennsluefnis í námskeiðinu Trúarlífsuppeldis- og kennslufræði. Magnús kallaði Sigurð helvítis glæpamann vegna þess að hann er fyrrverandi prestur," segir í bréfi Péturs. „Magnús hefur margítrekað veist að mér og samstarfsmönnum mínum í ræðu og riti og sakað okkur um vísvitandi blekkingar og óheiðarleika í störfum okkar," segir jafnframt á öðrum stað í bréfinu.

Minnir á gamlar aðfarir kirkjunnar

Magnús S. Magnússon segir að ásakanir í sinn garð sem birtist í bréfinu séu fráleitar. „Þetta er í beinu framhaldi af því að ég er að reyna að berjast gegn dreifingu hindurvitna gagnvart börnum. Ég er atferlisvísindamaður, starfa alþjóðlega og tek þessi mál óskaplega alvarlega. Kirkjan finnur fyrir því. Mér var sýndur ofboðslegur yfirgangur og móðgandi hegðun á þessum fundi," segir hann í samtali við Viðskiptablaðið. Magnús er staddur í Bandaríkjunum þar sem hann vinnur að rannsóknarverkefni. Hann kemur heim í næstu viku og mun þá bregðast við málinu. „Þetta eru ótrúlegar aðfarir og minnir mig á aðferðir kirkjunnar í gamla daga, að ráðast á manninn," bætir hann við.

Aðspurður hvort rétt hafi verið að hann hafi truflað fyrirlesara segir hann slíkar ásakanir vera makalausar. Hann hafi einfaldlega beint spurningum til fyrirlesara á milli erinda, líkt og aðrir á málþinginu. Þá segir hann að dr. Sigurður Pálsson hafi sýnt sér fádæma dónaskap með því að neita að yrða á hann. „Þá bara sagði hann að hann myndi ekki tala við mann eins og mig. Með þjósti og heift neitaði hann að ræða við mig og ég átti að vera útskúfaður af fundi í Háskóla Íslands," segir hann.

Glæpsamlegt að pranga hindurvitnum upp á börn

Magnús er afar óánægður með það að trú og trúarskoðunum sé haldið að börnum í íslensku samfélagi. „Það að ráðast á blásaklaus óþroska börn og troða inn í þau hindurvitnum eins og íslam eða kristni eða einhverju slíku á meðan þau eru alveg varnarlaus er stórkostlegur glæpur. Mín barátta er að verða eins og barátta krabbameinslækna gegn tóbaksiðnaðinum og loftslagsvísindamanna gegn þeim sem eru að menga allan heiminn. Ég er ekkert hættur. Þetta verður mín barátta," segir hann að lokum.

Bréfið á sér lengri aðdraganda

Í samtali við Viðskiptablaðið segir Pétur Pétursson að bréfið eigi sér lengri aðdraganda en meint framkoma Magnúsar á málþinginu einu og sér. Hann segir að Magnús hafi oftar reynt að gera sér erfitt fyrir í fræðastörfum við guðfræðideildina.

Aðspurður hver sé tilgangurinn með því að senda rektor bréf segir hann: „Ég býst við að rektor taki manninn tali og leiði honum fyrir sjónir að svona framkoma er ekki sæmandi innan veggja háskólans. Hvernig heldur þú að það sé að standa í því að vera með akademíska kennslu í guðfræði og hann hagar sér þannig á málþingum og bregður fyrir sig trúfrelsi, skoðanafrelsi og umburðarlyndi að nemendur mínir eru hálfpartinn í sjokki eftir að hann er búinn að ausa sér yfir þá."

Ekki náðist í Kristínu Ingólfsdóttur, rektor við Háskóla Íslands, vegna málsins en hún er stödd erlendis á ráðstefnu.