,,Hækkun stýrivaxta nú er illskiljanleg og tilefnislaus og margt sem bendir til þess að hún komi ekki til með að skila tilætluðum árangri. Ákvörðun bankans mun í besta falli stuðla að innistæðulausri styrkingu á gengi krónunnar til skamms tíma og auka enn á það ójafnvægi sem ríkir efnahagsbúskapnum. Í versta falli stuðlar hún að snörpu falli krónunnar með tilsvarandi verðbólguskoti og kaupmáttarskerðingu,” sagði Bjarni Már Gylfason hagfræðingur  Samtaka iðnaðarins í samtali við vb.is.

,,Við sjáum gengið styrkjast strax í kjölfar hækkunarinnar eins og við mátti búast. Ein afleiðing þess er vaxandi einkaneysla sem er raunar þvert á markmið Seðlabankans. Vondu fréttirnar eru hins vegar þær að staða útflutnings- og samkeppnisgreina versnar enn. Ég er ekki viss um að hækkun stýrivaxta hafi teljandi áhrif  á verðbólgu til lengri tíma litið því fyrr síðar gefur gengið eftir með tilsvarandi verðbólguskoti.

“Verðbólgan í dag mælist 4.5% en sé fasteignaverð tekið út er hún 1.3% sem er vel viðsættanlegt. En vegna þess hvernig Seðlabankinn tekur fasteignaverð með inn í verðbólgumarkmið sitt er nú verið að hækka vexti þrátt fyrir að verð á vörum og þjónustu sé lítið sem ekkert að hækka. Stýrivextir Seðlabankans hafa hvorki teljandi áhrif á langtímavexti íbúðalána né á verðþróun á fasteigna. Samt berst bankinn við fasteignaverðbólgu með hækkun stýrivaxta. Ég er hræddur um að við komum til með að fá ákvörðunina um hækkun stýrivaxta beint í hausinn aftur og hver er þá ávinningurinn til lengri tíma litið. Ég tel að staðan í peningamálum, háir vextir, sterkt og óstöðugt gengi sýni okkur að þörf sé á breytingum í peningamálastefnu Seðlabankans. Vaxtastefnan veldur skaðlegum gengissveiflum og því að gengi krónunnar er mun sterkara en fæst staðist til lengdar, ” segir Bjarni Már Gylfason hagfræðingur Samtaka Iðnaðarins.