*

laugardagur, 17. ágúst 2019
Innlent 12. janúar 2016 10:43

Illugi: „Allt hugsandi fólk ætti að hafa áhyggjur“

Menntamálaráðherra segir opinbera kerfið lélegt í að bera á borð nýjungar í menntamálum.

Karl Ó. Hallbjörnsson
Birgir Ísl. Gunnarsson

Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra hélt stutta ræðu á setningarathöfn lestrarforritsins Study Cake í morgun þar sem hann snerti á mikilvægi þess að skapa nýjungar í menntakerfinu.

Study Cake er sprotafyrirtæki sem gerir foreldrum kleift að leikjavæða og verðlauna lestur barna sinna gegnum samnefnt smáforrit, en það var gefið út í fyrsta sinn í dag.

Ráðherra sagðist ekki leggja það í vana sinn að mæta á allar setningarathafnir nýrra fyrirtækja - slíkt myndi æra óstöðugan. Þó fyndist honum tilefni til að segja nokkur orð í tilefni nýs menntunartæknifyrirtækis líkt og Study Cake.

„Allt hugsandi fólk ætti að hafa áhyggjur af þessari þróun,“ sagði Illugi um þróun læsis barna, sem fer sífellt lækkandi með árunum. Hann segir þróunina uggvænlega, en að nýjungagjörn framtök á borð við Study Cake geti snúið stöðu mála við.

„Skólakerfið sjálft leysir þennan vanda ekki sjálft. Opinbera kerfið er ekki svo gott í að koma með nýjungar - og raunar er það frekar lélegt í því.“

Þess í stað segir Illugi að nýsköpunarfyrirtæki séu betur til þess fallin að þróa lausnir við vandamálum menntakerfisins.