Illugi Gunnarsson, formaður þingflokks Sjálfstæðisflokks, sagði í hádegisfréttum Bylgunnar í dag að forsætisráðherra væri að færa Samfylkinguna til hliðar í stjórnmálum með yfirlýsingum sínum. Var þá vísað til ummæla Jóhönnu Sigurðardóttur í viðtali við Fréttablaðið í gær þar sem hún sagði Samfylkinguna ekki á leið í stjórnarsamstarf við flokk sem vildi stöðva aðildarviðræður við ESB.

Jóhanna sagði meðal annars í viðtalinu að hún vildi gjarnan framhald á núverandi stjórnarsamstarfi. „Og mér finnst það óbærileg tilhugsun að Sjálfstæðisflokkurinn komist aftur til valda eftir kosningar, hugsanlega með Framsóknarflokknum,“ bætti hún við.

„Menn eigi að sýna kjósendum þá virðingu að bíða kosninga,“ sagði Illugi í dag. Hann sagði að eðlilegra væri að sjá hver niðurstaða kosninga verður og ákveða þá hvað rétt sé í viðræðum um stjórnarmyndun. Illugi bætti við að ummæli Jóhönnu væru einstrengingsleg og gilti það jafnt um yfirlýsingu gegn stjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokkin og nýleg ummæli hennar um samstarf við Samtök iðnaðarins og atvinnulífsins og aðkomu ríkisstjórnarinnar að gerð kjarasamninga.