Illugi Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, segir að ef komist verði að þeirri niðurstöðu að Íslendingar geti ekki búið við eigin peningamálastjórn og eigin mynt þá sé tvíhliða upptaka evru vel rökstudd leið sem megi skoða. Hann nefndi reyndar þann möguleika í ræðu sem hann flutti á Iðnþingi í mars.

„Það sem skiptir máli núna í umræðunni um efnahagsmál er hvort við getum haft okkar eigin mynt og náð árangri í peningamálastjórnuninni. Það er sú umræða sem þarf að eiga sér stað,“ segir hann í samtali við Viðskiptablaðið.

„Ef við hins vegar komumst að  þeirri niðurstöðu að ókostirnir við eigin peningamálastjórn og eigin mynt séu það miklir að það sé betra að búa við annan gjaldmiðil þá er þarna vel rökstudd leið sem menn geta skoðað.“ Vísar hann þarna til tvíhliða upptöku evru. Björn Bjarnason dómsmálaráðherra hefur eins og kunnugt er viðrað hana á vef sínum en hugmyndin er þó ekki ný af nálinni.

Illugi sagði til að mynda í ræðu sinni á þingi Samtaka iðnaðarins í mars síðastliðnum að í ljósi þess að evran væri mynt innri markaðarins hefði EFTA þjóðunum í EES samstarfinu átt að standa til boða frá upphafi að taka þátt í myntsamstarfinu. „Ísland og Noregur gætu til dæmis vel haldið því fram að þar sem þjóðunum sé ætlað að taka upp allar reglur sem lúta að innri markaðinum til þess að tryggt sé að allir sitji við sama borð, ætti þjóðunum að standa til boða að nýta sér hina sameiginlegu mynt,“ sagði hann og bætti við.

„Þessi skoðun hreyfir þó ekki við þeim rökum sem ég hef fært fyrir því að við eigum að standa utan ESB og að kostir við evruna séu ekki nægir til að vega upp á móti ókostum við að ganga í sambandið og þeim hagstjórnarvanda sem evran hefur í för með sér.“