„Frú forseti....nei, herra forseti. Hvað er þetta eiginlega?“ spurði Illugi Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sem átti í mesta basli með kyn forseta Alþingis í ræðu sinni á Alþingi í dag um breytta skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands og nýtt verkefni efnahagsráðuneytis.

Ástæðan fyrir kynruglingi þingmannsins er sú að Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, steig til hliðar eftir að óundirbúnum fyrirspurnartíma lauk rétt eftir klukkan ellefu í morgun og tók Samfylkingarmaðurinn Kristján L. Möller og 3. varaforseti Alþingis, sæti hennar.

Illugi sagði í ræðu sinni eftir að hafa víxlað kynjum forseta nokkrum sinnum að hann væri orðinn svo vanur hinu, þ.e.a.s. að segja: frú forseti.

Lauk Illugi máli sínu með orðunum: Virðulegi forseti.