Illugi Gunnarsson segir í viðtali við Hringbraut að hann vilji endurskoða og breyta núverandi fyrirkomulagi í háskólamenntun.

Illugi ræddi um að háskólar séu í auknum mæli farnir að hleypa nemendum í meistaranám án þess að hafa lokið stúdentsprófi eða grunnnámi. Þá sé fjárhagslegur hvati fyrir háskóla að útskrifa sem flesta.

Minnst var á sögu af háskólakennara sem vildi fella alla í bekknum sínum, svo lakur var árangur nemenda hans. Rektor háskólans bannaði honum það á þeim forsendum að háskólinn yrði að útskrifa sem allra flesta nemendur, og gerði kennaranum að gefa lágmarkseinkunnina 5.

Illugi segir þetta fyrirkomulag ekki geta gengið til langs tíma. Hann hefur kynnt drög að breytingum á háskólakerfinu fyrir ríkisstjórninni, og hefur fundað með öllum sjö rektorum íslensku háskólanna fyrir vikið.

Þá segist hann vilja horfa til umbunakerfis sem hampaði góðri menntun, og kæmi í veg fyrir að skólar stæðu og féllu með tölu þeirra sem útskrifast frá skólanum.