Katrín Jakobsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, lagði fram fyrirspurn til Illuga Gunnarssonar menntamálaráðherra um skýringu á ummælum hans sem Viðskiptablaðið fjallaði um í síðustu viku.

Þá sagði Illugi í ræðu sem hann hélt við opnunarathöfn sprotafyrirtækisins Study Cake að opinbera kerfið væri frekar lélegt í að koma fram með nýjungar í menntamálum, og að framtak einstaklingsins væri öllu jöfnu talsvert skilvirkara.

Katrín sagði Illuga þá vera ósáttan við hið opinbera skólakerfi, og spurði hvort hann teldi meira máli skipta þegar að nýsköpun kæmi - rekstrarformið eða fagmennskuna.

Einnig spurði Katrín að því hvort það væri ósk Illuga að sjá hluta skólakerfisins einkarekinn. „Nýsköpun,” sagði Katrín, „hefur gjarnan verið samvinnuverkefni hins opinbera og einkaframtaksins.”

Illugi benti þá á að það hefði verið hið opinbera sem fann upp kjarnorkusprengjuna. Það væri því ekki allt gott sem kæmi frá hinu opinbera. Framtak einstaklingsins væri þvert á móti það sem leiddi gjarnan til lausna.