Auðlindagjald er einfaldlega veltuskattur, en ekki bara skattur á svokallaða rentu, sem skapast í sjávarútvegi, að sögn Illuga Gunnarssonar, Alþingismanns, en hann var einn ræðumanna á fundi Félags viðskiptafræðinga og hagfræðinga um kvótafrumvarpið. Þá sagði Illugi að auðlindagjaldið lendi hlutfallslega þyngst á þeim byggðum þar sem útgerð er mest. Sagði hann að með frumvarpinu væri verið að færa stjórnmálamönnum mjög mikil völd og að slík valdaaukning væri varhugaverð.

Benti Illugi á að eignastaða sjávarútvegsfyrirtækja muni lækka vegna auðlindaskattsins og að það geti haft slæm áhrif á bankana, sem séu langstærstu kröfuhafar íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja. Sagðist hann efast um að bankakerfið væri svo stöndugt að það gæti tekist á við slíka virðislækkun á veðum.

Þá sagði hann að íslensk sjávarútvegsfyrirtæki ættu í harðri og harðnandi samkeppni við ríkisstyrktar útgerðir erlendis. Í öðrum löndum greiði sjávarútvegur ekki sambærilegan skatt og auðlindagjaldið sem nú er lagt til að íslensk fyrirtæki greiði. Þvert á móti fái erlend fyrirtæki gjarnan styrki eða skattaívilnanir frá viðkomandi stjórnvöldum.

Stærri útgerðir eiga auðveldara með að bera gjaldið, að sögn Illuga en erfiðast yrði ástandið fyrir þær útgerðir sem nýlega hafi keypt kvóta. Ef leysa á þetta vandamál með því að bæta inn í kerfið alls konar undanþáguákvæði fæli það í sér öngþveiti í fiskveiðistjórnun og myndi auka á óvissu í greininni.

Sagði Illugi að ef Steingrímur J. Sigfússon, sjávarútvegsráðherra, væri laus við Samfylkinguna væru þeir tveir líklega sammála um veiðigjald. Vísaði hann þar til ummæla Steingríms frá árinu 1997 þegar Steingrímur mælti harðlega gegn því að tugir milljarða yrðu teknir út úr sjávarútvegi í formi veiðigjalds. Sagði Illugi að hann gæti verið sammála því að hóflegt veiðigjald yrði sett á sjávarútveg en að ekki mætti kollsteypa kerfinu.