Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra segir að niðurstöður nýrrar PISA könnunar séu sláandi. Það sé mikið áhyggjuefni að Íslendingum fari aftur í þessu efni. „Ég staðnæmist nú mjög við niðurstöðurnar í lestrinum. Þetta er grafalvarlegt mál og í rauninni áfall fyrir okkur að þetta skuli vera niðurstaðan. Það að 30% drengja geti illa lesið sér til gagns er ekki bara vandamál þessa einstaklinga heldur líka vandamál alls samfélagsins,“ segir Illugi. Hann bætir því við að lesskilningur sé grundvöllur fyrir annarri frammistöðu í námi.

Pisa könnunin er gerð meðal fimmtán ára unglinga. Íslendingar hafa ekki komið vel út í PISA könnunum hingað til. En frá því að þessar mælingar hófust, árið 2000 höfum við verið að fara jafnt og þétt niður. „Í lestri erum við svipuð og 2006 en stærðfræðn niður og náttúrfræðilæsin niður,“ segir Illugi.

Hann segir þó niðurstöðurnar ekki vera alslæmar. „Það sem er jákvætt er að við sjáum það að krökkunum okkar líður vel í skólanum. Og það er jákvætt, sem við sjáum einnig í öðrum könnunum, að það er að draga úr einelti. Við eigum að byggja á þessu og nýta okkur þetta. En það verður að vera þannig að krökkunum okkar líði vel og að þeir tileinki sér námsefnið,“ segir Illugi.

Hann segir þó að það ætti að vekja alla til umhugsunar um skólakerfið að á öllum sviðum eru Íslendingar undir meðaltali OECD. „Það er ekki hægt að útskýra þetta með að það vanti fjármuni. Grunnskólastigið er það stig sem við fjármögnum hvað best. Þetta er flóknara mál en svo og það þarf að greina þetta vel. Það þurfa allir að taka þátt í því, kennarar foreldrar og við sem berum ábyrgð á menntakerfinu í heild,“ segir Illugi.

Illugi segist hafa byrjað á því í gær að funda með fulltrúum helstu samtaka sem koma að skólamálum. Þeirri vinnu verði haldið áfram í vikunni. Þá mun ég fara yfir þessar niðurstöður og gera þeim grein fyrir aðgerðum sem ég byrjaði að undirbúa í sumar,“ segir Illugi.

Þar sé annarsvegar um að ræða aðgerðir til að bæta árangur í lestri og aðgerðir til að bæta framhaldsskólana. Illugi býst við því að hægt verið að kynna almenningi þessar tillögur eftir áramót.