Illugi Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins sigraði örugglega í prófkjöri flokksins í Reykjavík í gær er hann hlaut 4.232 atkvæði í fyrsta sæti listans en í prófkjörinu kusu 7.855 manns.

Guðlaugur Þór Þórðarson, sem einnig hafði óskað eftir fyrsta sæti lenti í öðru sæti með 2.868 atkvæði í 1. – 2. sæti.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur nú níu þingmenn úr Reykjavík, tíu að meðtöldum Jóni Magnússyni sem nýlega gekk til liðs við flokkinn á ný. Þrír þingmenn gáfu ekki kost á sér til endurkjörs, þau Geir H. Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins, Björn Bjarnason, fyrrv. dómsmálaráðherra og Guðfinna Bjarnadóttir sem setið hefur á þingi í tæp tvö ár.

Eins og fyrr segir bættist Jón Magnússon í þingflokk Sjálfstæðismanna þegar hann sagði sig nýlega úr Frjálslynda flokknum. Jón gaf kost á sér í prófkjörinu í gær en komst ekki inn á lista yfir tólf efstu.

Þá kemur Ólöf Nordal ný inn í Reykjavík en hún er nú þingmaður flokksins fyrir Norðausturkjördæmi. Þannig að átta sitjandi þingmenn voru í framboði í prófkjörinu í gær en að Jóni Magnússyni undanskildum raðast sjö þeirra í sjö efstu sætin.

Erla Ósk Ásgeirsdóttir kemur ný inn á listann í áttunda sætið og Þórlindur Kjartansson, formaður SUS kemur inn á listann í níunda sætið. Þá hafnaði Sigríður Andersen, héraðsdómslögmaður í tíunda sæti listans.

Niðurstaðan í prófkjörinu fyrir 12 efstu sætin er sem hér segir:

  1. Illugi Gunnarsson (var í 5. sæti eftir prófkjör flokksins haustið 2006.)
  2. Guðlaugur Þór Þórðarson (var í 2. sæti eftir prófkjör flokksins haustið 2006.)
  3. Pétur H. Blöndal (var í 6. sæti eftir prófkjör flokksins haustið 2006.)
  4. Ólöf Nordal (var í 3. sæti á lista flokksins í NA kjördæmi eftir prófkjör haustið 2006.)
  5. Sigurður Kári Kristjánsson (var í 8. sæti eftir prófkjör flokksins haustið 2006.)
  6. Birgir Ármannsson (var í 9. sæti eftir prófkjör flokksins haustið 2006.)
  7. Ásta Möller (var í 7. sæti eftir prófkjör flokksins haustið 2006.)
  8. Erla Ósk Ásgeirsdóttir
  9. Þórlindur Kjartansson
  10. Sigríður Andersen
  11. Jórunn Frímannsdóttir
  12. Gréta Ingþórsdóttir

Sjá nánar talnagögn um próflkjörið.