Illugi Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, vék af þingi eftir að skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis var birt vorið 2010 en hann hafði sem kunnugt er setið í stjórn Sjóðs 9, peningamarkaðssjóðs í eigu Glitnis. Í viðtali við Viðskiptablaðið verður ekki hjá því komist að spyrja Illuga útí setu hans í stjórn sjóðsins. Hér á eftir fer kafli úr viðtalinu þar sem fjallað er um þetta mál:

Það er talað um að ýmsir þingmenn Sjálfstæðisflokksins séu með beinagrindur í skápnum. Ein af þeim hlýtur að vera hinn margfrægi Sjóður 9, þar sem þú sast í stjórn. Þú vékst að vísu af þingi á meðan starfsemi sjóðsins var til skoðunar, en hvaða áhrif telurðu að þetta muni hafa á pólitískan feril þinn?

„Það var vissulega pólitískt áfall fyrir mig að hafa þurft að víkja af þingi. En ég tók sjálfur ákvörðun um að gera það án þess að einhver krafa hafi verið uppi um slíkt,“ segir Illugi.

Þú tókst líka ákvörðun um að setjast í stjórn sjóðsins þegar þú varst þingmaður. Var það rétt ákvörðun?

„Ég hefði auðvitað ekki gert það á sínum tíma nema ég teldi það hafa verið rétt,“ segir Illugi.

„Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að það sé eðlilegt að stjórnmálamenn séu bæði með góðan bakgrunn í viðskiptalífinu, kunni að fylgjast þar með og séu jafnvel þátttakendur. Það skiptir auðvitað mestu máli að allir hagsmunir stjórnmálamanna séu sýnilegir og upp á borðum. Það var mikið eftirlit með þessum sjóði, fyrst og síðast af hálfu Fjármálaeftirlitsins auk þess sem hann var skráður í Kauphöllinni með tilheyrandi gegnsæi og eftirliti. Þetta var ekki stjórn sem var að ákveða í hvaða bréfum skyldi fjárfest, heldur var hlutverk hennar að sjá til þess að sjóðurinn starfaði innan þess ramma sem honum var settur. Í ljósi þessa mikla eftirlits sem var með sjóðnum taldi ég rétt að taka sæti sem almennur stjórnarmaður. Svo getur maður verið vitur eftir á og bölvað þessu öllu saman, en svona hugsaði ég þetta.“

Í kjölfar bankahrunsins var það niðurstaða rannsóknarnefndar Alþingis að það ætti að senda öll mál sem tengdust peningamarkaðssjóðum til rannsóknar og í kjölfarið vék Illugi af þingi.

„Þá taldi ég að mér bæri að stíga til hliðar og taka þetta alvarlega, sem ég og gerði,“ segir Illugi aðspurður um þetta.

„Síðan gerist það að það er höfðað skaðabótamál á grundvelli niðurstöðu rannsóknarskýrslunnar þar sem reyndi á alla þá þætti sem þar voru tilteknir. Niðurstaðan úr þessu máli var sú að það var allt saman dregið til baka og sá þáttur sem þó var látið reyna á var vísað frá dómi. Þar fyrir utan kom álitsgerð sem Aðalsteinn Jónsson hrl. vann, en hann er einn fremsti lögmaður landsins á þessu sviði. Þar var farið í gegnum þá þætti sem tilteknir voru í rannsóknarskýrslunni og niðurstaðan var sú að þarna væri ekkert tilefni til refsiné skaðabótaábyrgðar á hendur stjórninni.“

Þá ítrekar Illugi mikilvægi þess að ekki hafi verið teknir peningar úr ríkissjóði til að setja inn í sjóðinn eftir hrun, þrátt fyrir þráláta umræðu um annað. Máli sínu til stuðnings vísar hann í fyrirspurn Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur, þingmanns Samfylkingarinnar, til þáverandi fjármálaráðherra þar sem fram kemur að ekki hafi verið teknir peningar úr ríkissjóði til að setja inn í þennan tiltekna sjóð.

„Það var ekki auðveld ákvörðun að víkja tímabundið af þingi en ég tel að sú ákvörðun hafi verið ábyrg og rétt. En þegar þessi gögn voru orðin opinber, þá taldi ég rétt að taka aftur til þeirra starfa sem ég var kosinn til,“ segir Illugi.

„Vitanlega er enginn stjórnmálamaður sem styrkist af svona. En þú ert að lokum ekki síður dæmdur af því hvernig þú bregst við áföllum og ágjöf. Ég brást svona við og legg það svo í hendur minna kjósenda. Það mun á það reyna í prófkjörum.“

Nánar er rætt við Illuga í ítarlegu viðtali í Viðskiptablaðinu. Þar tjáir Illugi sig einnig um andrúmsloftið á þinginu og hvað megi betur fara þar, efnahags- og gengismálin, stöðu Sjálfstæðisflokksins og formanns flokksins. Auk þess svarar hann frekari spurningum um setu sína í stjórn Sjóðs 9 og pólitískar afleiðingar þess að hafa setið í stjórn sjóðsins.