Það vakti mikla athygli þegar Illugi og Bjarni Benediktsson skrifuðu grein um mögulega upptöku evru fyrir nokkrum árum. Hins vegar hefur lítið farið fyrir því að undanförnu og í viðtali við Illuga veltir blaðamaður því upp hvort Sjálfstæðisflokkurinn hafi í raun enga stefnu í gjaldmiðlamálum þrátt fyrir mikla umræðu um þau mál. Það liggur því beinast við að spyrja hvort flokkurinn ætli að skila auðu í þeirri umræðu?

„Ég hef alltaf sagt að gjaldmiðlamálið sé það mikið hagsmunamál fyrir Ísland að við þurfum að skoða alla kosti fram og til baka. Það er svo mikið undir,“ segir Illugi.

„Mér finnst ekki leyfilegt í umræðunni um þetta mál að nálgast það með svarthvítum hætti, að þeir sem vilji taka upp evru séu kallaðir föðurlandssvikarar og að þeir sem vilji halda krónunni séu úthrópaðir sem einangrunarsinnar. Við þurfum að geta talað um þetta af sæmilegu viti. Ég vildi ekki útiloka þann möguleika að við tækjum upp evru, það hefði ekki verið ábyrg afstaða í ljósi stöðu íslensku krónunnar. En það lá alltaf fyrir að það væri mjög ólíklegt að hægt væri að semja við ESB með ásættanlegum hætti fyrir okkur Íslendinga. En ég tel augljóst að þær breytingar sem evruríkin þurfa að gera á sínu samstarfi til að bjarga evrunni geri það að verkum að þessi möguleiki er ekki til staðar fyrir okkur.“

Blaðamaður rifjar upp ummæli Illuga í frétt Viðskiptablaðsins í mars sl. um tvíhliða upptöku Kanadadollars, þar sem Illugi sagði að þeir sem töluðu fyrir því að krónan væri ónýt ættu í það minnsta að vera áhugasamir um þann möguleika að taka upp Kanadadollar.

„Það tilfelli var mjög sérstakt. Sendiherra Kanada lét hafa eftir sér ummæli að þar á bæ væru menn tilbúnir til að skoða þennan möguleika með Íslendingum,“ segir Illugi.

„Ég geri auðvitað stóran mun á einhliða upptöku annars vegar og tvíhliða upptöku í samstarfi við annað ríki hins vegar. Stjórnvöld þurfa þó að gæta þess að grafa ekki undan krónunni með því að hlaupa um allar koppagrundir í leit að einhverju betra. Ef um er að ræða tvíhliða upptöku, hvort sem er á evru eða öðrum gjaldmiðli, þá þýðir það alltaf það mikið framsal af fullveldi að ég efast stórlega um að íslenska þjóðin verði tilbúin til að gangast undir slíkt. Að sama skapi er það þannig að það mun ekki ganga upp fyrir Ísland til lengdar að vera með gjaldmiðil sem er ekki gjaldgengur nema hér innanlands. Þetta er sú mynd sem við blasir. Þetta er eitt af þeim málum sem stjórnvöld, verkalýðshreyfingin og atvinnurekendur þurfa að skoða saman og ná sátt um. Þetta er ekki mál sem verður leyst með illindum og upphrópunum.“

Nánar er rætt við Illuga í ítarlegu viðtali í Viðskiptablaðinu. Þar tjáir Illugi sig einnig um andrúmsloftið á þinginu og hvað megi betur fara þar, efnahags- og gengismálin, stöðu Sjálfstæðisflokksins og formanns flokksins. Auk þess svarar hann spurningum um setu sína í stjórn Sjóðs 9 og pólitískar afleiðingar þess að hafa setið í stjórn sjóðsins.