Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra hefur kynnt þingflokki Sjálfstæðisflokksins þau áform sín að hætta við frekari lækkun útvarpsgjaldsins fyrir árið 2016, en til stóð að það færi úr 17.800 krónum í 16.400 krónur um áramótin. Greint er frá þessu í Morgunblaðinu .

Þar kemur fram að þingmenn Sjálfstæðisflokksins taki þessum áformum misjafnlega. Einnig hefur ráðherrann ákveðið að skipa þriggja manna nefnd sem ætlað er að fara ofan í saumana á rekstri Ríkisútvarpsins. Verður nefndin undir forystu Eyþórs Arnalds og á hún að skila niðurstöðum sínum í sumar.

„Það er alveg ljóst, að það verða ekki allir sáttir við þessa tillögu menntamálaráðherra um að fresta frekari lækkun útvarpsgjaldsins og hún á eftir að verða umdeild í þinginu,“ er haft eftir ónafngreindum þingmanni Sjálfstæðisflokksins í frétt Morgunblaðsins.