Dagblaðið Berlingske Tidene greinir frá því í netútgáfu sinni að verslunarhúsið Illum sé að taka við sér eftir erfiðleika undanfarinna ára. Velta vöruhússins jókst um 14% á síðasta ári samkvæmt frétt blaðsins. Er þar sagt að umbreytingar nýrra rekstraraðila séu nú að bera ávöxt og þess vænst að þetta ár verði en betra fyrir reksturinn.

Íslenska fjárfestingafélagið I-Holding ehf. keypti 80% hlut í Illums verslunarhúsinu við Strikið í Kaupmannahöfn í ágúst síðstliðnum.

I-Holding samanstóð af Baugi Group, Straumi fjárfestingabanka og B2B Holding, en sami hópur keypti eigendur dönsku stórverslunarinnar Magasin du Nord, Wessel & Vett, og þar með 20% hlut í Illum.

Straumur fjárfestingabanki og B.R.F sáu um fjármögnun yfirtökunnar. Kaupverðið var ekki gefið upp en Straumur-Burðarás seldi fyrir skömmu sinn hlut með góðum söluhagnaði, ef marka má tilkynningu frá félaginu.

Það var bandaríski fjárfestingabankinn Merrill Lynch sem seldi hlut sinn í Illum til I-Holding.