Íbúðalánasjóður áætlar að það verði útlána aukning muni nema níu til tíu milljörðum króna milli ára og í heild muni þau vera 52-59 milljörðum króna á næsta ári, að sögn greiningardeildar Glitnis.

?Þetta er athyglisvert í ljósi þess að flestir spá kólnun á fasteignamarkaði árið 2007 og vænta má að umsvif á honum dragist saman samhliða þeirri þróun. Ein skýring á þessari bjartsýni ÍLS getur verið að hann geri ráð fyrir að markaðshlutdeild hans aukist í krafti þess að lán hans eru nú með lægri vexti en bankarnir bjóða. Þó verður að taka tillit til þess að hluti þeirra aukningar sem vænst er kemur til vegna aukningar í útlánum til leiguíbúðalána, en gert er ráð fyrir að þau aukist um fjóra milljarða króna milli ára,? segir greiningardeildin.

Auk þess er búist við aukinni útgáfu íbúðabréfa á næsta ári. ?Búist er við að útgáfan verði 47-55 milljarðar króna en það er 12-14 milljörðum meira en í ár. Íbúðalánasjóður áskilur sér rétt til að endurskoða áætlanir sínar verði breyting á aðstæðum á markaði. Áætlun þessa árs var endurskoðuð tvisvar sinnum til lækkunar.

Það er mat okkar að áætlun sú sem sjóðurinn setur fram að þessu sinni sé með bjartsýnasta móti og teljum við hæpið að hún muni ganga eftir. Er það ekki síst vegna þess að vextir íbúðalána hafa hækkað töluvert frá því sem þeir voru lægstir auk þess sem nú lítur út fyrir að hámarki þess þensluskeiðs sem íslenskt hagkerfi hefur gengið í gegn um sé náð,? segir greiningardeildin.