Hermann Jónasson, forstjóri Íbúðalánasjóðs, segir að í fjárhagsáætlun sjóðsins sé ekki gert ráð fyrir eiginfjárframlagi frá hinu opinbera. Einu fjárframlög hins opinbera til Íbúðalánasjóðs samkvæmt fjárlögum næsta árs séu vegna vaxtaniðurgreiðslu félagslegra leiguíbúðalána og tapaðs vaxtamunar vegna lækkunar höfuðstóls verðtryggðra íbúðalána.

Viðskiptablaðið fjallaði um fjárhagsstöðu Íbúðalánasjóðs á dögunum, en þar kom meðal annars fram að nettó vaxtamunur sjóðsins hafi minnkað mikið síðustu tvö ár og verið neikvæður um rúman milljarð króna á fyrri helmingi síðasta árs. Hermann segir í pistli á vefsíðu ÍLS að brugðist hafi verið við uppsöfnuðum uppgreiðsluvanda Íbúðalánasjóðs á síðasta ári. Uppgreiðslur verði þó áfram áskorun.

Hermann segir sjóðinn starfa samkvæmt mjög þröngum heimildum um hámarkslán í kjölfar lagabreytinga árið 2012. „Ekki er hægt að segja að Íbúðalánasjóður eigi í beinni samkeppni við bankana um en ný útlán sjóðsins nema innan við 10% af heildarútlánum til íbúðarkaupa árlega síðustu þrjú ár í samanburði við húsnæðislán bankanna sem hafa á sama tíma verið á bilinu 200-300 milljarðar króna,“ segir Hermann.