Stjórn Íbúðalánasjóðs (Íls) hefur ekki tekið ákvörðun um að hætta útgáfu HFF skuldabréfaflokka. Í viðtali við mbl.is í gær sagði formaður stjórnar Íls að ákvörðun hafi verið tekin um að gefa ekki út fleiri skuldabréf í núverandi flokkum. Í tilkynningu frá sjóðinum segir að það sé ekki rétt, engin ákvörðun liggi fyrir.

„Vegna sterkrar lausafjárstöðu sjóðsins hefur Íbúðalánasjóður hinsvegar ekki gefið út HFF bréf frá því í janúar 2012. Eðli máls samkvæmt er útgáfu í skuldabréfaflokkum ekki hætt fyrr en í fyrsta lagi eftir að nýir flokkar skuldabréfa hafa verið kynntir til leiks og skráðir í kauphöll. Ákvörðun um slíkt hefur ekki verið tekin.

Unnið er að stofnun nýrra flokka fjármögnunarskuldabréfa sjóðsins. Fyrirhugað er að nýir flokkar verði uppgreiðanlegir. Þannig mæti nýir flokkar kröfum um styrkari áhættustýringu sjóðsins,“ segir í tilkynningunni.