Íbúðalánasjoður mun fá skýrari heimild til þess að færa niður íbúðalán að 110% af verðmæti fasteignar nái frumvarp er Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra, hyggst leggja fram í þinginu á næstunni fram að ganga. Frá þessu greinir Morgunblaðið í dag. Skortur á slíkri heimild hefur staðið aðgerðum bankanna til hins sama fyrir þrifum þar sem margir lánþegar hafa fengið lán hjá fleiri en einni lánastofnun.

Samkomulag um aðlögun íbúðarlána náðist á milli bankanna og ÍLS í janúar en þá kom á daginn að áðurnefnd heimild var ekki nægilega skýr í lögunum og er frumvarpinu ætlað að ráða bót á því. Jafnframt mun ríkissjóður þurfa að leggja ÍLS til meira fé en þær 33 milljónir sem þegar höfðu verði eyrnamerktar sjóðnum í fjáraukalögum.

Sigurður Erlingsson, framkvæmdastjóri ÍLS, segir í samtali við Morgunblaðið að skortur á heimild hafi þó ekki tafið vinnuna við niðurfærslu lána svo heitið geti. Þegar hafi sjóðurinn tekið við 500 umsóknum um niðurfærslu. „Við höfum tekið við öllum umsóknum og um leið og lagaheimildin liggur fyrir þá fer þetta vonandi að rúlla af stað,“ segir Sigurður.