Íbúðalánasjóður hefur selt 1.654 íbúðareignir frá upphafi árs 2014. Þetta kemur fram í samantekt Morgunblaðsins sem birtist í morgun. Þar segir að árið 2013 voru 2.606 íbúðareignir í eigu sjóðsins en að í dag á hann 1.552 eignir. Þá hefur hann eignast 600 íbúðareignir á sama tíma og hann hefur selt 1.654.

Morgunblaðið greindi frá því að fjármálastofnanir hérlendis eiga nú um 2.800 íbúðareignir en þær voru um 3.500 um mitt ár 2013. Á sama tíma og Íbúðalánasjóður hefur selt 950 fleiri íbúðir en hann hefur eignast hefur íbúðum í eigum fjármálastofnana einungis fækkað um 700-800 miðað við tölur í hagvísi Seðlabankans frá júní síðastliðnum. Allar fjármálastofnanir sem Morgunblaðið náði sambandi við hafa selt fleiri eignir en þær hafa eignast.