Eftirlitstofnun EFTA (ESA) tilkynnti í gær um þá ákvörðun sína að kerfið sem notað var utan um uppkaup Íbúðalánasjóðs (ÍLS) á íbúðalánasöfnum fjármálafyrirtækja fæli í sér ólögmæta ríkisaðstoð og væri ekki í samræmi við ákvæði samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (EES).

Alls hefur ÍLS keypt lánasöfn af fjórum sparisjóðum fyrir tæpa 29 milljarða króna. Umræddir sjóðir eru Sparisjóðurinn í Keflavík, Byr sparisjóður, SPRON og Sparisjóður Bolungarvíkur. Þrír þeir fyrstnefndu eru gjaldþrota.

ESA fer fram á að kerfið, svokallað aðstoðarkerfi fasteignaveðlána, verði lagt niður án tafar og að nauðsynlegar ráðstafanir verði gerðar til að endurheimta ósamrýmanlega aðstoð sem veitt hefur verið á grundvelli þess eigi síðar en í lok október 2011, eða eftir 4 mánuði.

Úr neyðarlögunum

Heimild til að setja upp aðstoðarkerfið sem ESA gerir athugasemd við var lögfest í neyðarlögunum í október 2008. Að sögn Gunnhildar Gunnarsdóttur, sviðsstjóra lögfræðisviðs ÍLS og staðgengils forstjóra sjóðsins, hafði heimildin tvíþættan tilgang; annarsvegar að gefa fjármálafyrirtækjum í lausafjárvanda kost á að koma eignum sínum í verð, og hins vegar lá að baki henni sú hugsun að koma viðskiptavinum sjóðanna í „skjól“ hjá ÍLS. Niðurstaða ESA byggir hins vegar á að heimildin hafi gengið lengra en neyðarréttur þjóðar heimilar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöðum.