Íbúðalánasjóður undirritaði í gær samning við leigufélagið Heimavelli um kaup á 139 fasteignum af sjóðnum í einu lagi en fyrirtækið átti hæsta tilboðið í opnu söluferli sem hófst í desember sl. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem sjóðurinn sendi frá sér í dag.

106 íbúðanna sem seldar voru til Heimavalla eru á Austurlandi en alls voru 504 fasteignir í fimmtán eignasöfnum auglýstar samtímis.

Búið að samþykkja tilboð upp á alls 6,4 milljarða

Í tilkynningunni segir að það hafi verið yfirlýst stefna Íbúðalánasjóðs að losa um meirihluta fasteigna sjóðsins á þessu ári.

Alls bárust á endanum 43 kauptilboð í þau fimmtán eignasöfn sem auglýst voru, en frestur til að skila inn tilboðum rann út í byrjun febrúar. Sjóðurinn fór í framhaldinu í frekari samningaviðræður við tilboðsgjafa sem áttu hæstu tilboðin. Nú þegar hefur verið gengið að tilboðum í 356 eignir af þeim 504 sem auglýstar voru og er söluverð þeirra um 6,4 milljarðar króna.

Seldi 18 íbúðir á Fáskrúðsfirði

Með sölunni til Heimavalla lækkar eignastaða Íbúðalánasjóðs á Austurlandi úr 232 eignum í 126 eignir. Þá seldi sjóðurinn nýverið 18 eignir á Fáskrúðsfirði til annars leigufélags. Samsetning eigna í hverju safni í söluferlinu miðaðist við að hagkvæmt gæti verið að reka um þær leigufélög og eru eignir í hverju þeirra að jafnaði í sama byggðarlagi.