Íslenska Ameríska sem flytur alla starfsemi sína í Korputorg á næstunni, en félagið hefur keypt allt húsnæðið, mun endurnýja samninga sína við Ilvu og Rúmfatalagerinn. Þetta kemur framí frétt Morgunblaðsins .

Samningar við aðra leigjendur munu ekki vera endurnýjaðir og munu renna sitt skeið á enda. Við það munu þá fyrirtækin Pier, Bónus, ToysRus, Korpuoutlet og Planið bílasala missa húsnæði sitt.

Öll starfsemi undir eitt þak

Heildarstærð húsnæðisins eru 45.550 fermetrar, en með kaupunum hyggst Ísam færa alla starfssemi fyrirtækisins undir eitt þak.

„Jafnt og þétt ætlum við að flytja bæði heildsölustarfsemina og aðra framleiðslu á borð við Frón og Ora í húsið. Kexsmiðjan verður hins vegar áfram á Akureyri,“ segir Bergþóra Þorkelsdóttir forstjóri Ísam í viðtali við Morgunblaðið.

„Við erum að hugsa þessa fjárfestingu til mjög langs tíma og við teljum að Korputorgið sé mjög vel staðsett fyrir starfsemina. Það er stutt í helstu umferðaræðar og það getur skipt máli fyrir okkur, ekki síst þegar litið er til þess að við erum í ákveðnum tilvikum að keyra daglega út til margra fyrirtækja.“

Bergþóra segir ekki á stefnuskránni að halda í húsnæðið í Skeifunni 19 þegar Myllan flyst í Korputorg.