Farsímafyrirtækið IMC á Íslandi undirritaði í dag samstarfssamning við Símann um aðgang að dreifikerfi Símans, sem er stærsta farsímadreifikerfi á Íslandi. Samningurinn markar tímamót, þar sem Síminn undirritar í fyrsta sinn svo viðamikinn samning um aðgang að dreifikerfi sínu fyrir farsíma, við nýjan aðila á markaði. Nýstofnað systurfyrirtæki IMC  mun sjá um sölu og þjónustu við neytendur á Íslandi segir í tilkynningu.

Nýja félagið heitir Alterna Tel og í janúar hefst sala á farsímaþjónustu á öllu landinu undir nafninu Alterna. IMC er hluti af WorldCell samsteypunni sem býður farsímaþjónustu í Evrópu, Afríku, Asíu og Mið-Austurlöndum. WorldCell er með höfuðstöðvar í Washinton DC í Bandaríkjunum og er móðurfélag bæði IMC og Alterna.  IMC á Íslandi var stofnað árið 2000 og hefur félagið fyrst og fremst einbeitt sér að viðskiptum erlendis.

IMC er með um 430 reikisamninga í öllum byggðum  heimsálfum. Þeir reikisamningar byggja á leyfisveitingu til félagsins frá árinu 2000, þegar Póst og fjarskiptastofnun á Íslandi veitti IMC farsímaleyfi. Með stofnun Alterna Tel  verður breyting  á áherslum IMC á Íslandi. Nú ætlar IMC að bjóða íslenskum neytendum þjónustu sína hér á landi undir merkjum  Alterna Tel.  Þar er um að ræða nýja nálgun sem ekki hefur sést áður á íslenska farsímamarkaðnum segir í tilkynningu.

Verðskrá og tilboð kynnt í byrjun árs

Verðskrá félagsins og tilboð verða kynnt í byrjun nýs árs. ,,Samningurinn við Símann veitir IMC og Alterna Tel aðgang að öflugasta farsímadreifikerfi landsins, frá fyrsta degi. Þetta gerir það að verkum að Alterna Tel mun koma fullskapað inn á markaðinn og getur boðið þjónustu um allt land," segir í tilkynningu.

„Við fögnum mjög samstarfinu við Símann. Það gerir okkur kleift að ráðast í allsherjar markaðssókn á Íslandi. Við höfum tekið ákvörðun um mikla uppbyggingu á Íslandi og að sama skapi umtalsverða fjárfestingu. Við erum að koma inn með mikla fjármuni, tækjabúnað og sérfræðiþekkingu.  Andlit okkar á Íslandi verður hið nýstofnaða félag, Alterna Tel og við búumst við miklu af því fólki sem þar vinnur," segir Jeffrey K. Stark  framkvæmdastjóri IMC á Íslandi í tilkynningu.

Hópur sérfræðinga frá IMC og Símanum vinnur nú að uppsetningu á tæknibúnaði og samtengingu við fjarskiptakerfi Símans. Símstöðvarkjarna IMC verður skipt út fyrir nýjan og mjög fullkominn og afkastamikinn búnað til að þjónusta viðskiptavini Alterna. Einnig verða settir upp fleiri sendar í eigu móðurfélagsins. Nú þegar eru uppi sendar á vegum félagsins á nokkrum þéttbýlisstöðum á landsbyggðinni.

„Þessi samningur er afar mikilvægur fyrir Alterna Tel sem ætlar sér stóra hluti á Íslenska farsímamarkaðnum. Við höfum verið að undirbúa okkur mánuðum saman og í janúar munum við koma tilbúin inn á íslenskan farsímamarkað með stærsta dreifikerfi landsins á bak við okkur. Samningurinn við Símann gerir það að verkum að okkur er kleift að taka þetta stóra skref og bjóða þjónustu á landsvísu. Yfirbygging Alterna Tel er lítil sem engin og munu  viðskiptavinir okkar njóta þess. Móðurfélag IMC, WorldCell er að setja inn mikla fjármuni í upphafi í formi tækjabúnaðar og rekstrarfjármagns. Auk þess býr samsteypan yfir mikilli reynslu og sérþekkingu sem mun nýtast okkur vel. Það er mjög ánægjulegt, sérstaklega á þessum tímum að erlend fjárfesting skili sér til landsins," segir Róbert Bragason framkvæmdastjóri Alterna Tel á Íslandi í tilkynningu.

„Við erum afar ánægð með að Alterna Tel skuli tengjast inn á dreifikerfi Símans. Síminn hefur lagt mikla fjármuni í uppbyggingu farsímakerfis síns og lagt áherslu á þétta dekkun þess sem skilar sér í stærsta dreifikerfi landsins. Bakland Alterna Tel er sterkt og metnaður félagsins mikill inn á íslenskan farsímamarkað. Við bindum miklar vonir við samstarfið og bjóðum  Alterna Tel velkomið á dreifikerfi Símans," segir Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri Símans í tilkynningu.