Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (IMF) gerir ekki ráð fyrir að alþjóðlega fjármálakreppan lagist fyrr en undir lok næsta árs.

„2009 verður mjög erfitt ár,“ sagði Dominique Strauss-Kahn, framkvæmdastjóri IMF við fjölmiðla í dag og bætti því við að sjóðurinn myndi í byrjun næsta árs kynna endurskoðaða hagvaxtaspá sína fyrir árið 2009.

Í byrjun nóvember gaf IMF út skýrslu þar sem spáð var 2,2% hagvexti á heimsvísu en áður hafði sjóðurinn gert ráð fyrir 3% hagvexti á heimsvísu.

Talsvert munar um breytta efnahagsspá sjóðsins fyrir Kína. Í upphafi ársins spáði IMF 11% hagvexti í Kína árið 2009. Þá hefur sjóðurinn minnkað spá sína, fyrst niður í 8%, síðan í 7% en að sögn Strauss-Kahn í dag er gert ráð fyrir rétt rúmlega 5% hagvexti í Kína á næsta ári.

Þá sagði Strauss-Kahn hættan á alþjóðakreppu sé enn raunveruleg.

„Við gerum okkur grein fyrir að eitthvað þarf að gera,“ sagði Strauss-Kahn og bætti því við að ríkisstjórnir heimsins þyrftu, við gerð mögulegra björgunarpakka sinna, að hugsa lengra en næstu tvo ársfjórðunga.

Þá sagði Strauss-Kahn að líkast til þyrfti um 2.100 milljarða Bandaríkjadali, um 2% að þjóðarframleiðslu heimsins, til að hafa veruleg áhrif á hagkerfi heimsins.