Fleiri evrópskir bankar kynnu að falla á næstunni þar sem efasemdir eru uppi um styrkleika þeirra og vel kann að fara svo að vöxtur þeirra síðustu ára sé byggður á veikum stoðum.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Alþjóða gjaldeyrissjóðsins (IMF) en frá þessu er greint á vef BBC.

Greint er frá því að bankarnir eigi í erfiðleikum með að fjármagna sig á ný og þurfi að treysta á innlán viðskiptavina, sölu eigna og samrunum við aðra banka.

Í skýrslu IMF kemur fram að þeir erfiðleikar sem komið hafa upp á fjármálamörkuðum í Bandaríkjunum, þar sem nokkrir bankar hafa þegar orðið gjaldþrota, auki verulega á áhættuna á frekari krísu í Evrópu.

BBC tekur dæmi af íslensku bönkunum sem nýlega voru þjóðnýttir og greint er frá samningaviðræðum íslenskra stjórnvalda við IMF.

Ef af verður er Ísland fyrsta vestræna ríkið til að fá aðstoð frá IMF í rúm þrjátíu ár eða frá því að Bretar fengu aðstoð sjóðsins árið 1976.