Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (IMF) samþykkti í gærkvöldi lánveitingu upp á tæpa 1,7 milljarða evra til Lettlands (um 2,35 ma. Bandaríkjadalir).

Lán IMF er hluti af 7,5 milljarða evru lánapakka sem samanstendur af lánum frá Evrópusambandinu, Alþjóðabankanum og fleirum, meðal annars Tékklandi, Póllandi, Eistlandi og Norðurlöndunum.

Líkt og á Íslandi er láninu ætlað að styrkja gengi lettneska latsins og er lánið veitt með þeim skilyrðum að yfirvöld dragi saman seglin og lækki fjárlög landsins verulega.

Þá hefur tekjuskattur í Lettlandi verið hækkaður úr 18% í 21% að ósk IMF en það hefur valdið kurri í höfuðborg landsins, Riga.

Þá hefur ríkisstjórn Lettlands heitið því að halda fjárlagahalla innan við 5% af þjóðarframleiðslu en stefnt er að því að ná honum niður í 3% fyrir árið 2011.