Paul Thomsen, formaður sendinefndar IMF, sagði á blaðamannafundi í dag að mikill samdráttur og atvinnuleysi væri óumflýjanlegt.

Meginmarkmið með aðkomu sjóðsins eru að:

1. Endurreisa traust á íslenska hagkerfinu og koma stöðugleika á krónuna.

2. Koma á jafnvægi í ríkisfjármálum. Undirbúa sterka aðhaldsstefnu í ríkisfjármálum til meðallangs tíma.

3. Koma á trúverðulegri bankastefnu til þess að endurreisa traust bankakerfi sem stutt getur við íslenska hagkerfið.

Upphæðin 6 milljarðar dollara var nefnd sem sú heildaraðstoð sem Ísland þarf á að halda og inn í þeirri tölu munu 2 milljarðar dollara koma frá IMF. Þannig að verið er að gera ráð fyrir að við þurfum 4 milljarða dollara frá öðrum aðilum, en fulltrúar sjóðsins töldu of snemmt að segja til um hverjir þær aðilar gætu verið.

Í máli fulltrúa IMF kom einnig fram að þeir telji að verðbólga verði komin niður í 4,5% í lok árs 2009.