Sendinefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF) hefur á undanförnum tveimur vikum átt fundi með fólki úr stjórnsýslunni, háskólasamfélaginu, einkageiranum og hagsmunasamtökum, vegna vinnu við aðra endurskoðun á efnahagsáætlun Íslands og IMF.

Þegar hefur náðst samkomulag, milli starfsmanna IMF og íslenskra stjórnvalda, um aðra endurskoðun áætlunarinnar. Í janúar ætti önnur endurskoðun að geta farið fram, og annar hluti samtals 2,1 milljarðs dollara lánveitingu kæmi svo í kjölfarið. Framkvæmdastjórn IMF þarf að samþykkja endurskoðaða áætlun áður en frekari lánveitingar koma hingað til lands.

Viðræðurnar undanfarnar vikur hafa öðru fremur snúist um áætlanir í ríkisfjármálum fyrir árið 2010, skuldastýringu ríkissjóðs og þau skref sem taka þarf í endurbyggingu bankakerfisins og endubætingu á regluverki þess. Þetta kemur fram í tilkynningu frá IMF en sendinefndin heldur af landi brott eftir blaðamannafund sem nú stendur yfir í húsakynnum Seðlabanka Íslands.

Að mati sendinefndar IMF er skuldastaða ríkisins viðráðanlegri nú, heldur en gert var ráð fyrir í fyrstu endurskoðun áætlunarinnar, aðallega vegna þess að mun minni kostnaður hefur verið af endurbyggingu bankakerfisins en áætlað var í fyrstu. Þar ræður miklu að kröfuhafar hafa tekið 87% hlut í Arion banka og 95% hlut í Íslandsbanka en áður var gert ráð fyrir því að ríkið yrði eigandi bankanna beggja.

Haft er eftir Mark Flanagan, sem fer fyrir sendinefnd IMF vegna málaefna Íslands, í tilkynningunni að framundan sé tími endurbyggingar í einkageiranum, sem muni styðja við efnahagsbata Íslands.