Eins og greint var frá fyrir stundu hefur forsætisráðuneytið ákveðið að birta tölvupóstsamskipti milli ráðuneytisins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins vegna  athugasemda, sem sjóðurinn gerði við frumvarp ríkisstjórnarinnar um seðlabankalög.

Þau samskipti hafa nú verið send fjölmiðlum.

Eins og fram hefur komið í umfjöllun Viðskiptablaðsins um málið sendu embættismenn forsætisráðuneytisins sérfræðingum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF) frumvarp laga um Seðlabankann í enskri þýðingu í tölvupósti í þar síðustu viku.

Því var síðan fylgt eftir í símtali að ábendingar frá sérfræðingum sjóðsins varðandi fyrirliggjandi frumvarp væru vel þegnar.

Þess hefur verið krafist, meðal annars af Birgi Ármannssyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins og Geir H. Haarde, formanni flokksins að samskipti forsætisráðuneytisins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins verði birt.

Í gögnum sem forsætisráðuneytið birtir í dag kemur fram að Mark Joseph Flanagan, starfsmaður sjóðsins sendi Birni R. Guðmundssyni, skrifstofustjóra forsætisráðuneytisins athugasemdir við seðlabankafrumvarpið laugardaginn 7. febrúar s.l. þar sem hann segir að um tæknilegar athugasemdir sé að ræða af hálfu sérfræðinga sjóðsins.

Þá segir Flanagan í pósti sínum að líta eigi á athugasemdirnar sem trúnaðarmál og biður um að ekki sé vitnað í þær á opinberum vettvangi. Fyrr í bréfinu kemur fram að sjóðurinn vilji ekki lenda í hringiðu stjórnmálaumræðunnar.

Í tölvupósti þann 9. febrúar lýsir Flanagan yfir áhyggjum sínum yfir því að tæknileg ráðgjöf sjóðsins muni draga sjóðinn inn í pólitískar deilur auk þess sem hann óttist að ummæli sjóðsins verði tekin úr samhengi.

„Eins og þú veist styður IMF ekki eintaka stjórnmálaflokka eða persónur heldur góða stefnumótun,“ segir Flanagan í pósti sínum og ítrekar að sjóðurinn þurfi að vinna með hverjum þeim sem sitji við stjórnartaumana hverju sinni.

Flanagan býðst hins vegar til að veita opinbera umsögn en það taki sérfræðinga um það bil 1-2 daga.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sendi síðan opinbera umsögn um frumvarpið þann 12. febrúar en sú umsögn var birt opinberlega.

Í tölvupósti sem Flanagan sendi fyrrnefndum Birni kemur fram að fyrri athugasemdir sjóðsins þurfi að njóta trúnaðar þar sem þar sé að finna trúnaðarupplýsingar.